Lungnakrabbameinsbókin kemur út

Á vormánuðum 2009 kom út kver um lungnakrabbamein gefið út af læknum sem sinntu sjúklingum sem greindust með lungnakrabbamein á Íslandi. Í stað þess að uppfæra kverið þá var ráðist í gerð stærra rits og nú hefur verið gefin út lungnakrabbameinsbókin sem ætluð er heilbrigðisstarfsfólki og nemum í heilbrigðisvísindum en einnig almenningi.  Bókin verður aðgengileg hérna á vefnum lungnakrabbamein.isLungnakrabbameinsbókin

 

Fræðslubæklingur á ensku um lungnakrabbamein

Í tilefni af alþjóðlegum degi lungnakrabbameins, 17. nóvember, stendur samstarfshópur um lungnakrabbamein á Landspítala fyrir útgáfu fræðslubæklings á ensku um lungnakrabbamein.

Samantekt um réttindi krabbameinsveikra

Gunnjóna Una Guðmundsdóttir félagsráðgjafi hjá Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélags Íslands hefur tekið saman samantekt sem hún nefnir Réttindi krabbameinsveikra – upplýsingar um fjármál, félagsleg réttindi og endurhæfingu. Í henni tekur hún saman helstu úrræði sem í boði eru fyrir krabbameinssjúklinga hjá Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), félagsþjónustu sveitarfélaga, stéttarfélögum og lífeyrissjóðum. Þessari samantekt er ætlað að hjálpa fólki að fá yfirsýn yfir úrræði sem það getur hugsanlega nýtt sér í erfiðum aðstæðum.

 

 

 

Fræðslumynd um reykingar og lungnasjúkdóma

Fræðslumyndin „Manni sjálfum að kenna“  var frumsýnd 30. maí á RÚV.

Í þessari nýju íslensku heimildarmynd útskýra læknar eðli lungnasjúkdóma af völdum reykinga og sjúklingar segja frá glímu sinni við þá. Hér er hægt að horfa á myndina.

 

Gaf berkjuómspeglunartæki til Landspítala

Landspítala hefur borist vegleg gjöf frá Ólöfu Októsdóttur til kaupa á berkjuómspeglunartæki.  Ólöf greindist með útbreiddan sarklíkissjúkdóm árið 2007 og hefur náð góðum bata með meðferð.

 

Berkjuómspeglunartækið nýtist vel til rannsókna á sjúklingum með sjúkdóma í brjóstholi eins og lungnakrabbameini og sarklíki. Um er að ræða tæki sem ekki hefur verið til á Íslandi en með því er mögulegt að gera ómspeglun í gegnum öndunarveginn (EBUS – endobronchial ultrasound). Rannsóknin er gerð þannig að tækinu er rennt niður í barka sjúklings í gegnum munn og með hjálp ómtækni er hægt að staðsetja og taka sýni úr eitlum og öðrum fyrirferðum í brjóstholi til frekari rannsókna og greiningar.

 

Rannsóknir á eitlum í brjóstholi eru algengar á sjúklingum sem greinast með lungnakrabbamein og aðra sjúkdóma í miðmætiseitlum. Þær eru nauðsynlegar til að meta útbreiðslu meinsins og til að ákveða bestu mögulegu meðferð. Til þessa hefur þurft að framkvæma litla skurðaðgerð til að nálgast þessa eitla en þessi nýja rannsóknaraðferð mun draga úr þörf á slíkum aðgerðum með minna inngripi fyrir sjúklinga.

 

Tækið var formlega afhent spítalanum 15. janúar 2013 í viðurvist Ólafar þar sem kom fram að hún vildi á þennan hátt sýna þakklæti fyrir góða þjónustu frá Landspítala.

Námskeið í núvitund (mindfulness) fyrir sjúklinga og aðstandendur

Á undanförnum áratugum hefur  þjálfun í núvitundinni, stundum kölluð „gjörhygli“  verið innleidd sem viðbót við hefðbundna læknisfræðilega og sálfræðilega meðferð. Þar er tvinnað saman aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og sálfræði austrænnar visku.  Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að þjálfun í núvitundinni hefur jákvæð áhrif á almenna vellíðan og bætir heilsufar og dregur úr streitu, kvíða og depurð. Áherslan er  á að læra að láta af sjálfstýringu hugans, nema staðar „hér og nú“ með stuttum hugleiðsluæfingum og annarri hugarþjálfun . Þannig má öðlast meiri hugarró, sættast við það sem er og njóta betur líðandi stundar.

 

Námskeið í núvitund er haldið á vegum Sálfræðiþjónustu geðsviðs Landspítala í samvinnu við Krabbameinsfélagið og er fyrir sjúklinga spítalans og/eða aðstandendur. Leiðbeinandi er Margrét Bárðardóttir sálfræðingur. Hægt er að skrá sig með tölvupósti á asdisk@krabb.is.Námskeiðið er haldið í Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins,  Skógarhlíð 8, 1. hæð. s. 540 1915.

 

Námskeiðið hefst mánudaginn 19.nóvember kl. 14.30-16.00 og er 4 skipti fyrir jól og 4 skipti eftir jól frá 7. janúar. Lýkur 28. janúar 2013
Námskeiðsgjald er 7.700 kr, afsláttur fyrir öryrkja

Bættur árangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini hér á landi vekur athygli

Árangur skurðaðgerða vegna lungnakrabbameins hér á landi er mjög góður í alþjóðlegum samanburði og lífslíkur þeirra sem gangast undir slíkar aðgerðir hafa batnað umtalsvert. Þetta kemur fram í grein íslenskra vísindamanna við Háskóla Íslands og Landspítala sem birtist á dögunum í einu virtasta tímariti heims á sviði krabbameinslækninga, Journal of Thoracic Oncology.

 

Greinin í heild

 

Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið sem greinist hjá báðum kynjum á Íslandi.  Árlega greinast hátt í 150 einstaklingar með meinið. Helsta læknandi meðferð lungnakrabbameins er skurðaðgerð þar sem æxlið er fjarlægt ásamt nærliggjandi lungnavef. Þessar aðgerðir eru oft umfangsmiklar og hafa stundum fylgikvilla.

 

Í grein íslensku vísindamannana í tímaritinu Journal of Thoracic Oncology var kannaður árangur þessara aðgerða hér á landi á árabilinu 1994-2008. Greinin byggist á meistarverkefni Húnboga Þorsteinssonar læknanema, nú kandídats á Landspítala, sem vann það undir handleiðslu Tómasar Guðbjartssonar prófessors. Aðrir höfundar voru læknarnir Steinn Jónsson prófessor, Helgi J. Ísaksson, Ásgeir Alexandersson, Guðrún Nína Óskarsdóttir og Rut Skúladóttir.

Í ljós kom að árangur þessara aðgerða hér á landi er mjög góður á alþjóðlegan mælikvarða en 99 prósent sjúklinga lifðu þær af. Einnig höfðu lífslíkur sjúklinga batnað umtalsvert á síðasta fimm ára tímabili rannsóknarinnar. Í rannsókninni kom jafnframt í ljós að af þeim 1.530 sjúklingum sem greindust með lungnakrabbamein á rannsóknartímabilinu gengust alls 26 % undir skurðaðgerð. Það er hátt hlutfall miðað við önnur Evrópulönd og með því hæsta sem þekkist í heiminum. Til samanburðar hefur þetta hlutfall verið innan við 10% á Englandi og undir 20% annars staðar á Norðurlöndunum.

 

Í leiðara Journal of Thoracic Oncology júlí 2012 er sérstaklega bent á góðan árangur hér á landi og íslensku heilbrigðiskerfi hrósað.

 

Niðurstöður rannsóknarinnar þykja ánægjulegar í baráttunni við lungnakrabbamein. Næstu skref eru að fjölga enn frekar þeim sjúklingum sem geta gengist undir skurðaðgerð. Til þess þarf að greina fleiri þessara meina á fyrri stigum, þ.e. áður en þau hafa dreift sér út fyrir lungað. Framfarir í myndgreiningu skipta þar máli en ekki síður bætt fræðsla til sjúklinga um einkenni sjúkdómsins þannig að þeir leiti fyrr til læknis.

 

Um 90 prósent lungnakrabbameina má rekja til reykinga og öflugar forvarnir gegn þeim eru því langmikilvægasta vopnið í baráttunni við þennan illvíga sjúkdóm. Á þeim vettvangi hefur ýmislegt unnist en hlutfall þeirra sem reykja hér á landi er nú með því lægsta sem þekkist í heiminum. Íslendingar geta því orðið leiðandi á heimsvísu í baráttunni við reykingatengda sjúkdóma eins og lungnakrabbamein.

Kaup á berkjuómspeglunartæki fyrir Landspítala

Hefðbundin læknandi meðferð við lungnakrabbameini er skurðaðgerð þar sem hluti lungans er fjarlægður ásamt meininu, en kemur aðeins til greina þegar krabbameinið er staðbundið í lunganu. Fyrsti viðkomustaður útbreidds sjúkdóms er oftast nær eitlar í miðmæti en svo kallast svæðið fyrir miðju brjóstholi á milli lungnanna. Því er mikilvægt að ná sýnum úr þessum eitlum. Hingað til hafa sýnatökur á miðmætiseitlum verið gerðar með skurðaðgerð sem kallast miðmætisspeglun, en þá er sjúklingurinn svæfður og speglunartæki rennt niður í miðmæti í gegnum skurð neðarlega á hálsi.

 

Ný tækni við sýnatöku úr miðmætiseitlum er svokölluð ómspeglun. Þessi aðferð hefur breiðst hratt út á síðustu árum, sérstaklega í lungnakrabbameini, enda getur hún í mörgum tilvikum komið í stað eldri aðferða eins og miðmætisspeglunar. Ómspeglun hefur einnig reynst meiriháttar framfaraskref í meðferð ýmissa annarra sjúkdóma í brjóstholi, einsog vélindakrabbameins. Við ómspeglun er í stað skurðaðgerðar í svæfingu tekin sýni úr miðmætiseitlum í staðdeyfingu. Notast er við sérstakt berkjuómspeglunartæki sem rennt er niður í barka sjúklings (EBUS – endobronchial ultrasound) en einnig er hægt að spegla í gegnum vélinda (EUS, esophagal ultrasound). Á þennan hátt leggst sjúklingur ekki inn á spítala og getur farið heim samdægurs eftir rannsókn. Styrkur þessarar nýju tækni, sem byggir á ómhaus fremst á speglunartækinu, liggur í því að hægt er að rannsaka útbreiðslu sjúkdóms eins og lungnakrabbameins til miðmætiseitla með minna inngripi fyrir sjúklinga, um leið og hægt er ná til fleiri eitlastöðva og minnka  áhættu á fylgikvillum. Ómspeglun hefur verið rannsökuð ítarlega á síðustu árum og gildi hennar og öryggi vísindalega sannað. Þessi tækjabúnaður er nú til í langflestum nágrannalöndum okkar, þar á meðal Norðurlöndunum, þar sem hún er orðin fastur liður í greiningarferli lungnakrabbameinssjúklinga.  Gert er ráð fyrir því að árlega muni í kringum 100 sjúklingar með lungnakrabbamein verða rannsakaðir með ómspeglun hér á landi en tækið mun einnig nýtast fjölda annarra sjúklinga með sjúkdóma í brjóstholi.

 

Ómspeglunartæki hefur um nokkurt skeið verið í forgangi á  tækjakaupalista Landspítala en vegna mikils sparnaðar hefur spítalinn ekki séð sér fært að kaupa þennan búnað. Vegna þess stendur yfir söfnun á fé til kaupa á slíku tæki.  Kostnaður er áætlaður í kringum 6,8 milljónir en þegar hefur tekist að safna einni milljón með styrk frá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur og styrktarsjóði Bengt Scheving Thorsteinssonar. Eftir standa rúmar 5 milljónir og því ljóst að fleiri aðilar verða að koma að þessari söfnun ef öll upphæðin á að nást.

 

Ef nánari upplýsinga er þörf þá vinsamlega hafið samband við prófessor Tómas Guðbjartsson ( tomasgud@landspitali.is)


Ný heimasíða

Samhliða framförum í greiningu og meðferð lungnakrabbameins hefur þörfin fyrir fræðsluefni hvers konar vaxið hratt,  jafnt fyrir sjúklinga og aðstandendur  sem og heilbrigðisstarfsfólk og nema. Á Landspítala hefur verið starfandi hópur lækna sem hefur sérhæft sig í greiningu og meðferð lungnakrabbameins. Þessi hópur hefur á síðustu árum staðið að útgáfu bæklinga um lungnakrabbamein fyrir sjúklinga og aðstandendur auk bóka og vísindagreina fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Mikilvægt skref í þessu  fræðslustarfi  er heimasíðan lungnakrabbamein.is, en hún hefur verið í undirbúningi sl. hálft ár. Þar geta sjúklingar og aðstandendur fundið fræðsluefni sem tengist greiningu sjúkdómsins og meðferð, ásamt fróðleik um t.d. reykingavarnir og óhefðbundnar meðferðir. Einnig eru á heimasíðunni tenglar við vefsíðu Krabbameinsfélags Íslands og erlendra krabbameinssamtaka. Loks hafa læknar, hjúkrunarfólk og nemar aðgang þar að helstu vísindagreinum um lungnakrabbamein sem geta nýst þeim í  námi og starfi.

 

Vefsíðan var hönnuð í nánu samstarfi við Sjúklingasamtök lungnakrabbameinssjúklinga og að henni kemur fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Til verksins fengust styrkir frá nokkrum fyrirtækjum sem eru án nokkurra skilyrða. Vefstjóri er Kristín Lára Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og ákveður hún hvaða efni birtist á síðunni í samvinnu við sérstaka ritstjórn.

 

Grafískur hönnuður var Arnar Freyr Guðmundsson og forritari Samúel Þór Smárason. Ábyrgðarmaður er Tómas Guðbjartsson prófessor.