Ný heimasíða

Samhliða framförum í greiningu og meðferð lungnakrabbameins hefur þörfin fyrir fræðsluefni hvers konar vaxið hratt,  jafnt fyrir sjúklinga og aðstandendur  sem og heilbrigðisstarfsfólk og nema. Á Landspítala hefur verið starfandi hópur lækna sem hefur sérhæft sig í greiningu og meðferð lungnakrabbameins. Þessi hópur hefur á síðustu árum staðið að útgáfu bæklinga um lungnakrabbamein fyrir sjúklinga og aðstandendur auk bóka og vísindagreina fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Mikilvægt skref í þessu  fræðslustarfi  er heimasíðan lungnakrabbamein.is, en hún hefur verið í undirbúningi sl. hálft ár. Þar geta sjúklingar og aðstandendur fundið fræðsluefni sem tengist greiningu sjúkdómsins og meðferð, ásamt fróðleik um t.d. reykingavarnir og óhefðbundnar meðferðir. Einnig eru á heimasíðunni tenglar við vefsíðu Krabbameinsfélags Íslands og erlendra krabbameinssamtaka. Loks hafa læknar, hjúkrunarfólk og nemar aðgang þar að helstu vísindagreinum um lungnakrabbamein sem geta nýst þeim í  námi og starfi.

 

Vefsíðan var hönnuð í nánu samstarfi við Sjúklingasamtök lungnakrabbameinssjúklinga og að henni kemur fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Til verksins fengust styrkir frá nokkrum fyrirtækjum sem eru án nokkurra skilyrða. Vefstjóri er Kristín Lára Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og ákveður hún hvaða efni birtist á síðunni í samvinnu við sérstaka ritstjórn.

 

Grafískur hönnuður var Arnar Freyr Guðmundsson og forritari Samúel Þór Smárason. Ábyrgðarmaður er Tómas Guðbjartsson prófessor.