Landspítala hefur borist vegleg gjöf frá Ólöfu Októsdóttur til kaupa á berkjuómspeglunartæki. Ólöf greindist með útbreiddan sarklíkissjúkdóm árið 2007 og hefur náð góðum bata með meðferð.
Berkjuómspeglunartækið nýtist vel til rannsókna á sjúklingum með sjúkdóma í brjóstholi eins og lungnakrabbameini og sarklíki. Um er að ræða tæki sem ekki hefur verið til á Íslandi en með því er mögulegt að gera ómspeglun í gegnum öndunarveginn (EBUS – endobronchial ultrasound). Rannsóknin er gerð þannig að tækinu er rennt niður í barka sjúklings í gegnum munn og með hjálp ómtækni er hægt að staðsetja og taka sýni úr eitlum og öðrum fyrirferðum í brjóstholi til frekari rannsókna og greiningar.
Rannsóknir á eitlum í brjóstholi eru algengar á sjúklingum sem greinast með lungnakrabbamein og aðra sjúkdóma í miðmætiseitlum. Þær eru nauðsynlegar til að meta útbreiðslu meinsins og til að ákveða bestu mögulegu meðferð. Til þessa hefur þurft að framkvæma litla skurðaðgerð til að nálgast þessa eitla en þessi nýja rannsóknaraðferð mun draga úr þörf á slíkum aðgerðum með minna inngripi fyrir sjúklinga.
Tækið var formlega afhent spítalanum 15. janúar 2013 í viðurvist Ólafar þar sem kom fram að hún vildi á þennan hátt sýna þakklæti fyrir góða þjónustu frá Landspítala.