Kaup á berkjuómspeglunartæki fyrir Landspítala

Hefðbundin læknandi meðferð við lungnakrabbameini er skurðaðgerð þar sem hluti lungans er fjarlægður ásamt meininu, en kemur aðeins til greina þegar krabbameinið er staðbundið í lunganu. Fyrsti viðkomustaður útbreidds sjúkdóms er oftast nær eitlar í miðmæti en svo kallast svæðið fyrir miðju brjóstholi á milli lungnanna. Því er mikilvægt að ná sýnum úr þessum eitlum. Hingað til hafa sýnatökur á miðmætiseitlum verið gerðar með skurðaðgerð sem kallast miðmætisspeglun, en þá er sjúklingurinn svæfður og speglunartæki rennt niður í miðmæti í gegnum skurð neðarlega á hálsi.

 

Ný tækni við sýnatöku úr miðmætiseitlum er svokölluð ómspeglun. Þessi aðferð hefur breiðst hratt út á síðustu árum, sérstaklega í lungnakrabbameini, enda getur hún í mörgum tilvikum komið í stað eldri aðferða eins og miðmætisspeglunar. Ómspeglun hefur einnig reynst meiriháttar framfaraskref í meðferð ýmissa annarra sjúkdóma í brjóstholi, einsog vélindakrabbameins. Við ómspeglun er í stað skurðaðgerðar í svæfingu tekin sýni úr miðmætiseitlum í staðdeyfingu. Notast er við sérstakt berkjuómspeglunartæki sem rennt er niður í barka sjúklings (EBUS – endobronchial ultrasound) en einnig er hægt að spegla í gegnum vélinda (EUS, esophagal ultrasound). Á þennan hátt leggst sjúklingur ekki inn á spítala og getur farið heim samdægurs eftir rannsókn. Styrkur þessarar nýju tækni, sem byggir á ómhaus fremst á speglunartækinu, liggur í því að hægt er að rannsaka útbreiðslu sjúkdóms eins og lungnakrabbameins til miðmætiseitla með minna inngripi fyrir sjúklinga, um leið og hægt er ná til fleiri eitlastöðva og minnka  áhættu á fylgikvillum. Ómspeglun hefur verið rannsökuð ítarlega á síðustu árum og gildi hennar og öryggi vísindalega sannað. Þessi tækjabúnaður er nú til í langflestum nágrannalöndum okkar, þar á meðal Norðurlöndunum, þar sem hún er orðin fastur liður í greiningarferli lungnakrabbameinssjúklinga.  Gert er ráð fyrir því að árlega muni í kringum 100 sjúklingar með lungnakrabbamein verða rannsakaðir með ómspeglun hér á landi en tækið mun einnig nýtast fjölda annarra sjúklinga með sjúkdóma í brjóstholi.

 

Ómspeglunartæki hefur um nokkurt skeið verið í forgangi á  tækjakaupalista Landspítala en vegna mikils sparnaðar hefur spítalinn ekki séð sér fært að kaupa þennan búnað. Vegna þess stendur yfir söfnun á fé til kaupa á slíku tæki.  Kostnaður er áætlaður í kringum 6,8 milljónir en þegar hefur tekist að safna einni milljón með styrk frá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur og styrktarsjóði Bengt Scheving Thorsteinssonar. Eftir standa rúmar 5 milljónir og því ljóst að fleiri aðilar verða að koma að þessari söfnun ef öll upphæðin á að nást.

 

Ef nánari upplýsinga er þörf þá vinsamlega hafið samband við prófessor Tómas Guðbjartsson ( tomasgud@landspitali.is)