Annars konar meðferðir

Sjúklingar leita oft annarra leiða en hefðbundinna læknismeðferða (e. complementary therapies) til að bæta líðan sína í alvarlegum veikindum. Sem dæmi um meðferðir má nefna nudd, nálastungur, heilun, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og slökun, sem yfirleitt beinast að því að draga úr spennu og minnka verki. Ekkert af ofantöldu er veitt á sjúkrastofnunum hér á landi nema slökun og nálastungur. Sjúklingar hafa einnig leitað í ýmsar náttúruvörur, jurtaseyði, vítamínkúra og steinefni. Vísindalegur bakgrunnur þessara meðferða er ekki vel rannsakaður. Hins vegar hefur verið staðfest að taka slíkra efna getur leitt til aukaverkana og óhagstæðra milliverkana við önnur lyf, t.d. haft óæskileg áhrif á verkun krabbameinslyfja. Þekking á aukaverkunum og milliverkunum fer vaxandi og því er mikilvægt að ræða inntöku slíkra efna við lækna sem stýra meðferðinni. Upplýsingar um vísindalegan bakgrunn þessara efna má nálgast á síðunni www.mskcc.org/aboutherbs. Nýlega voru gefnar út leiðbeiningar alþjóðasamtaka þar sem upplýsingum um annars konar meðferð hefur verið safnað saman á einn stað (www.integrativeonc.org).