Að greinast með lungnakrabbamein er áfall fyrir bæði sjúklinginn og nánustu aðstandendur hans. Auk þess getur töluvert álag fylgt meðferðinni. Margir finna fyrir kvíða og jafnvel depurð, sem eru eðlileg viðbrögð við greiningu jafn alvarlegs sjúkdóms og lungnakrabbamein er. Stundum er gripið til kvíðastillandi lyfja, svefnlyfja og jafnvel þunglyndislyfja. Í flestum tilvikum nægir þó stuðningur fjölskyldu, vina og meðferðaraðila. Viðtöl hjá sálfræðingi eða þátttaka í hópmeðferð getur einnig reynst vel. Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands er upplýsinga- og stuðningsþjónusta sem m.a. býður upp á fræðslu og ráðgjöf fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra (www.krabb.is). Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinssjúklinga, þar sem fagfólk veitir aðstoð við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek. Ef tekjutap er fyrirséð vegna langvarandi veikinda er hægt að að leita eftir aðstoð félagsráðgjafa á Landspítalanum eða í gegnum Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands.
Oft skortir á að sjúklingar sem greinast með lungnakrabbamein finni fyrir sama skilningi á veikindum sínum og einstaklingar sem greinast með önnur krabbamein, s.s. brjósta- og blöðruhálskirtilskrabbamein. Ástæðan gæti verið sú að lungnakrabbamein er langoftast tengt reykingum. Því telur sjúklingurinn og aðrir að hann hafi kallað yfir sig veikindin með því að reykja. Staðreyndin er hins vegar sú að flestir þeirra sem einhvern tíma hafa reykt fá ekki lungnakrabbamein og hægt er að greinast með sjúkdóminn án þess að hafa nokkru sinni reykt.