Skimun

Skimun eða kembileit er gerð til þess að finna meinið snemma á sjúkdóms- ferlinum, þ.e. áður en það dreifir sér um líkamann. Í eldri rannsóknum, þar sem notast var við hefðbundnar röntgenmyndir af lungum, tókst ekki að sýna fram á gagnsemi skimunar fyrir lungnakrabbameini. Nýjungar í myndgreiningu, sérstaklega svokallaðar háskerputölvusneiðmyndir, hafa gert kleift að finna mun smærri hnúta í lungum en áður. Þannig virðast nýlegar rannsóknir benda til þess að sjúklingar sem greinast við skimun hafi minni æxli og betri horfur en þeir sem greinast vegna einkenna. Enn er þó ekki mælt með því að taka upp skipulagða kembileit á lungnakrabbameini og er beðið eftir niðurstöðum frekari rannsókna á gagnsemi skimunar.