Skurðmeðferð

Skurðaðgerð er helsta meðferðin til lækningar lungnakrabbameins. Hún á
þó einungis við þegar meinið hefur ekki dreift sér til annarra líffæra, það er á stigum I og II og í völdum tilvikum á stigi III. Rúmur helmingur sjúklinga með lungnakrabbamein hefur ekki staðbundinn sjúkdóm við greiningu og fer því ekki í aðgerð. Hjá 20% sjúklinga til viðbótar kemur í ljós við frekari rannsóknir að af einhverjum orsökum er ekki hægt að komast fyrir krabbameinið með skurðaðgerð. Í heildina gengst því þriðji hver sjúklingur með lungnakrabbamein undir skurðaðgerð á lunga.

 

Helstu tegundir skurðaðgerða og fylgikvillar

Blaðnám

Hefðbundin skurðaðgerð við lungnakrabbameini er blaðnám
(e. lobectomy) og er því beitt hjá 80% sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð. Lungnablaðið er þá fjarlægt í heild, ásamt eitlum í kring. Til að komast að lunganu er oftast gerður brjóstholsskurður á milli tveggja rifja á miðjum brjóstkassa.

 

Fleygskurður

Fleygskurður (e. wedge resection) er minni aðgerð en blaðnám og á við í u.þ.b. 10% tilfella. Þá er biti fjarlægður úr lunganu með heftibyssu. Aðgerðinni er aðallega beitt hjá sjúklingum sem ekki eru taldir þola blaðnám vegna skertrar lungnastarfsemi. Oftast er gerður brjóstholsskurður eins og við blaðnám, en í völdum tilfellum er hægt að gera aðgerðina með brjóstholssjá (e. Video Assisted Thoracoscopic Surgery, VATS). Myndavél í sjánni er þá tengd við sjónvarpsskjá og aðgerðin gerð í gegnum 1-3 cm stór göt á brjóstholinu. Sjúklingar eru yfirleitt fljótari að jafna sig eftir slíkar aðgerðir, en þær eru aðallega gerðar við minni æxli utarlega í lunga.

 

Lungnabrottnám

Ef æxli er staðsett í miðju lungans eða teygir sig á milli lungnablaða
getur þurft að gera lungnabrottnám (e. pulmectomy), þ.e. fjarlægja allt lungað. Lungnabrottnám er umfangs- mikil aðgerð og sjúklingar eru lengur að jafna sig eftir hana en eftir blaðnám eða fleygskurð.

 

Alvarlegir fylgikvillar eru sjaldséðir eftir skurðaðgerðir á lungum. Óregla á hjartslætti getur komið fyrir og sjúklingar geta fengið lungnabólgu. Sýkingar í skurðsár eru fremur sjaldséðar. Hins vegar er algengt að lungað leki lofti eftir aðgerð. Því þurfa sjúklingar oftast að hafa slöngu í brjóstholinu í nokkra daga eftir aðgerðina og er slangan oftast tengd við sog.

 

 

Aðgerðin og eftirmeðferð

Í upphafi skurðaðgerðar kemur svæfingarlæknir fyrir utanbastsdeyfingu
(e. epidural anesthesia), sem notuð er til að stilla verki eftir aðgerðina. Í staðdeyfingu er fíngerður leggur lagður inn að mænutaugum og eru verkja- og deyfilyf gefin í legginn með dælu. Leggurinn er oftast látinn vera um kyrrt í 2- 5 daga, en eftir að hann hefur verið fjarlægður eru verkjalyf gefin í töfluformi.

Meðan á aðgerð stendur er sjúklingurinn sofandi og hann síðan vakinn
í lok aðgerðar á skurðstofu. Algengt er að aðgerð taki tvær til þrjár klst. Sjúklingarnir fara síðan á vöknunardeild, nema sjúklingar sem gangast undir lungnabrottnám, en þeir eru hafðir yfir nótt á gjörgæslu. Á vöknun er fylgst með sjúklingnum í nokkrar klukkustundir áður en hann er færður á legudeild hjarta- og lungnaskurðdeildar. Fyrstu dagana eftir aðgerð er slanga í brjóstholi tengd við sog, en misjafnt er hvenær slangan er fjarlægð, þó sjaldan innan tveggja sólarhringa. Algengur legutími eftir aðgerð er 5 – 7 dagar. Fyrir útskrift liggur greining meinafræðings oftast fyrir, en endanlegar upplýsingar um niðurstöður aðgerðar eru veittar við eftirlit á göngudeild, sem alla jafna er viku eftir útskrift. Frekara eftirlit er í höndum lungna- eða krabbameinslæknis. Skurðurinn grær að fullu á 6-8 vikum og yfirleitt þarf ekki að taka sauma, þar sem þeir eyðast af sjálfu sér.