Orsakir lungnakrabbameins og þættir sem auka áhættu

Reykingar eru langalgengasta orsök lungnakrabbameins og eru taldar valda um 90% tilfella. Langflestir sem greinast með sjúkdóminn hafa því reykt umtalsvert einhvern tíma á ævinni. Fjöldi annarra sjúkdóma en lungnakrabbamein hefur sterk tengsl við reykingar, svosem hjarta- og æðasjúkdómar og lungnateppa. Reykmengun í umhverfi, stundum nefndar óbeinar reykingar, geta aukið áhættu á lungnakrabbameini hjá þeim sem aldrei hafa reykt og virðast börn og unglingar verða fyrir meiri áhrifum en fullorðnir.

Sígaretta

Einstaklingar með teppusjúkdóm í lungum eru í aukinni hættu á að greinast með lungnakrabbamein, líkt og þeir sem hafa komist í snertingu við tiltekin eiturefni í umhverfi, s.s. asbest. Ekki er sannað að ákveðnar fæðutegundir, t.d. grænmeti og ávextir, dragi úr hættu á lungnakrabbameini, en ýmislegt bendir þó til þess. Nýlega var sýnt fram á aukna hættu á lungnakrabbameini hjá ættingjum þeirra sem greinst höfðu með lungnakrabbamein og er ættgengi talið geta skýrt tæplega 20% tilfella.