Krabbameinslyfjameðferð

Á síðastliðnum árum hafa orðið töluverðar framfarir í lyfjameðferð við lungna- krabbameini. Ný lyf hafa komið til sögunnar og notkun eldri lyfja hefur breyst. Krabbameinslyf eru ýmist gefin ein sér eða samhliða annarri meðferð, t.d. eru þau stundum gefin með geislameðferð fyrir skurðaðgerð í læknandi skyni eða sem viðbótarmeðferð eftir skurðaðgerð. Oftast er krabbameinslyfjum þó beitt við lungnakrabbameini sem ekki er staðbundið (stig IV), þ.e. þegar skurðaðgerð eða geislameðferð á ekki við. Þar sem lyfjameðferð smáfrumukrabbameins er töluvert frábrugðin lyfjameðferð annarra lungnakrabbameina er fjallað sérstaklega um hana síðar.

 

 

Tilgangur krabbameinslyfjameðferðar hjá sjúklingum sem ekki eru með staðbundinn sjúkdóm er að hefta vöxt frumanna. Þannig er haldið aftur af einkennum sjúkdómsins og reynt að lengja líf sjúklingsins. Meðferðin er einstaklingsbundin og verður að taka tillit til fjölda þátta, svo sem almenns líkamlegs ástands, einkenna sjúklings og hvort starfsemi hjarta, lungna og nýrna er skert. Oft er beitt tveimur lyfjum samtímis og er þá annað lyfið úr flokki svokallaðra platinum-lyfja. Versni sjúkdómurinn síðar er hægt að grípa til annarra lyfja. Á síðustu árum hefur komið fram nýr flokkur lyfja sem oft eru kölluð líftæknilyf. Þau hafa sérhæfðari áhrif á krabbameinsfrumur en hefðbundin krabbameinslyf og trufla því síður aðrar frumur líkamans sem skipta sér hratt, eins og hárfrumur og frumur í beinmerg. Þau eru notuð við lungnakrabbameini sem ekki er staðbundið og geta í sumum tilvikum haldið aftur af þeim og lengt líf sjúklinga. Miklu fé er nú veitt til rannsókna á líftæknilyfjum og vonir standa til að þær rannsóknir leiði til frekari framfara í meðferð lungnakrabbameins.

 

Krabbameinslyfjameðferð

 

Krabbameinslyfjameðferð geta fylgt aukaverkanir en almennt gildir að þau krabbameinslyf sem notuð eru í dag hafa minni aukaverkanir en eldri lyf. Dæmi um aukaverkanir eru ógleði, þreyta, slappleiki, hármissir og bæling á starfsemi beinmergs. Þá geta sum krabbameinslyf truflað nýrnastarfsemi og því er mikilvægt að fylgjast með vökvajafnvægi sjúklinga meðan á meðferð stendur. Sjaldgæfari aukaverkanir eru heyrnarskerðing og truflanir á starfsemi útlimatauga.

 
 

Viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjum eftir skurðaðgerð

Sjúklingar sem gengist hafa undir skurðaðgerð vegna staðbundins lungna- krabbameins geta í allt að helmingi tilvika greinst aftur með sjúkdóminn. Til að bregðast við þessu hefur á síðustu árum verið reynt að gefa krabbameinslyf eftir skurðaðgerð hjá sjúklingum á stigi II og III til þess að draga úr áhættu á endurkomu sjúkdómsins. Hefur verið sýnt fram á að slík viðbótarmeðferð bætir árangur meðferðar þessara sjúklinga um allt að 10%. Á stigi I er ávinningur viðbótarmeðferðar hins vegar minni og því ekki mælt með slíkri meðferð. Viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjum á aðeins við hjá sjúklingum sem eru vel á sig komnir líkamlega og þola meðferðina vel.

 

Krabbameinslyf við smáfrumukrabbameini

Hjá sjúklingum með smáfrumukrabbamein ræður úbreiðsla sjúkdómsins hvaða meðferð verður fyrir valinu. Við sjúkdóm sem bundinn er við helming bjósthols er oftast beitt krabbameinslyfjum í æð á þriggja vikna fresti og geislameðferð gefin samhliða. Við útbreiddu smáfrumukrabbameini er hins vegar yfirleitt eingöngu beitt krabbameinslyfjum, oftast lyfjablöndu með tveimur lyfjum. Sé svörun við þessum lyfjum ófullnægjandi er gripið til annarra lyfja.