Mat á útbreiðslu sjúkdómsins – stigun

Með stigun er átt við kortlagningu á útbreiðslu sjúkdómsins. Þessar upplýsingar eru síðan nýttar til þess að spá fyrir um horfur sjúklinga og taka ákvörðun um meðferð, t.d. hvort markmiðið er að lækna sjúkdóminn eða halda honum í skefjum.

 

Stigun lungnakrabbameina annarra en smáfrumukrabbameina

Þessi krabbamein sem oftast eru kirtilmyndandi- eða flöguþekjukrabbamein eru bundin við lungað í um þriðjungi tilfella og því oft hægt að fjarlægja þau með skurðaðgerð. Sjúklingar eru stigaðir í fjóra hópa, I-IV. Stærð og staðsetning æxlisins skiptir miklu máli, en einnig hvort krabbameinið hafi dreift sér til eitla í miðmæti eða til annarra líffæra. Við stigun eru tölvusneiðmyndir af brjóstholi lykilatriði, en einnig af kviðarholi og höfði. Að auki er gert beinaskann, en þá er merkiefni, svokölluðum ísótóp, sprautað í æð og kannað hvort meinið hafi borist til beina.

 

Á stigi I og II er sjúkdómurinn bundinn við lungað (stig I) og/eða eitla sem eru staðsettir innan lungans (stig II).

 

Á stigum I og II er langoftast hægt að komast fyrir meinið með skurðaðgerð.

 

Á stigi III hefur meinið annað hvort dreift sér til eitla í miðmæti eða vex inn að miðmæti. Skurðaðgerð kemur þá aðeins til greina í völdum tilfellum.

 

Á stigi IV hefur lungnakrabbamein dreift sér til annarra líffæra, oftast til lifrar, heila, beina eða til hins lungans. Lungnaskurðaðgerð kemur þá nánast aldrei til greina og í staðinn er beitt meðferð með krabbameinslyfjum og geislameðferð.

 

Stigun smáfrumukrabbameins

Stigun smáfrumukrabbameins er frábrugðin stigun annarra tegunda lungna- krabbameins. Flest smáfrumukrabbamein hafa dreift sér út fyrir lungað þegar þau greinast og kemur skurðaðgerð því næstum aldrei til greina, eða
í innan við 5% tilfella. Aðeins er um tvö stig að ræða fyrir smáfrumukrabbamein, sjúkdóm bundinn við helming brjósthols (limited disease) og útbreitt smáfrumukrabbamein (extensive disease). Stig sjúkdómsins ræður síðan í hverju frekari meðferð er fólgin, þ.e. hvort beitt er geisla- eða krabbameinslyfjameðferð eða báðum meðferðum. Tölvusneiðmyndir af brjóstholi, heila og kviðarholi eru mikilvægar við stigun sjúkdómsins en einnig er oft tekið sýni úr beinmerg.

 

 

Mikilvægi miðmætiseitla við stigun og rannsóknir á þeim

Eitlar í miðmæti eru mikilvægir við mat á útbreiðslu lungnakrabbameins,
enda ræðst frekari meðferð oft af því hvort þeir eru eðlilegir eða ekki. Ástand eitlanna er metið á tölvusneiðmyndum. Reynt er að ná sýni úr þessum eitlum hjá öllum sem taldir eru á stigi II og III og í sumum tilfellum á stigi I. Oftast eru tekin sýni úr miðmætiseitlum með miðmætisspeglun en stundum er hægt að ná sýnum úr þeim með vélinda- eða berkjuspeglun. Er speglunartækið þá tengt sérstöku ómtæki sem auðveldar staðsetningu eitlanna.

Eitlar í miðmæti (rauðlitaðir) og lungum (gullitaðir).

 

Miðmætisspeglun er gerð í svæfingu og eru tekin sýni úr miðmætiseitlum í gegnum 2-3 cm skurð neðst á hálsinum. Aðgerðin tekur um hálftíma og er stundum gerð í sömu svæfingu og skurðaðgerð á lunga. Eitilsýni eru þá send í flýtigreiningu og æxlið í lunganu fjarlægt ef eitlar reynast eðlilegir.

Miðmætisspeglun