Hvað er lungnakrabbamein?

Hvað er lungnakrabbamein?

Lungnakrabbamein er upprunnið í frumum lungna. Krabbamein sem myndast annars staðar í líkamanum geta dreift sér til lungna, til dæmis brjóstakrabbamein eða ristilkrabbamein. Þegar krabbameinsfrumur hafa dreift sér frá upprunastaðnum til eitla eða annarra líffæra kallst það meinvarp. Lungnameinvörp teljast ekki til lungnakrabbameins, enda meðferð þeirra frábrugðin.

Krabbamein verða til þegar frumur hætta að lúta stjórn, taka að fjölga sér og mynda æxli. Orsökin er skemmdir í erfðaefni (DNA) frumunnar sem veldur röskun á starfsemi gena sem stýra frumuskiptingu. Í lungnakrabbameini verða breytingarnar á erfðaefni aðallega vegna krabbameinsvaldandi efna í umhverfi og þá sérstaklega í sígarettureyk. Krabbameinsfrumur virða ekki landamerki og geta því vaxið í aðlæg líffæri, dreift sér til eitla eða borist með blóði til fjarlægra líffæra.