Til þess að greina lungnakrabbamein er bæði beitt myndrannsóknum og berkjuspeglun. Oftast er byrjað á því að fá röntgenmynd af lungum. Þar birtist krabbameinið oftast sem hnútur eða þétting í lunganu. Síðan er gerð tölvusneiðmyndarannsókn (TS) á lungum og brjóstholi sem er mun nákvæmari rannsókn en hefðbundin röntgenmynd af lungum. Þar sjást betur útlínur krabbameinsins og nákvæm staðsetning þess í lunganu.
Til þess að greina lungnakrabbamein og ákveða meðferð er mikilvægt að ná sýni úr æxlinu til vefjarannsóknar. Oftast er það gert með berkjuspeglun en stundum er það ekki hægt, t.d. ef æxlið er staðsett utarlega í lunganu. Þá er unnt að stinga á æxlinu og er oftast notast við tölvusneiðmyndir til að auðvelda staðsetningu þess. Við stunguna getur komið gat á yfirborð lungans og loft lekið út í fleiðruholið. Við það fellur lungað saman og kallast það loftbrjóst. Loftbrjóst er oftast hættulítið, en stundum þarf meðferð með brjóstholsslöngu í nokkra daga og er sjúklingurinn þá tengdur við sog.
Einnig getur komið til greina að ná sýni úr meinvörpum, liggi þau betur við sýnatöku en æxlið í lunganu. Í sýnunum er leitað að krabbameinsfrumum, en einnig er reynt að greina um hvaða tegund og vefjagerð lungnakrabbameins er að ræða. Meinafræðingur les úr sýnunum og liggur greining hans oftast fyrir innan nokkurra daga, nema ef gera þarf sérstakar litanir á sýninu. Nákvæm vefjagreining er ekki síst mikilvæg hjá sjúklingum sem áður hafa greinst með krabbamein, t.d. í ristli eða brjóstum, því þau geta dreift sér til lungna og líkst lungnakrabbameini.