Lungun eru hluti af öndunarfærum og taka þátt í loftskiptum. Barkinn flytur loft til lungnanna sem skiptast í lungnablöð (e. lobi), þrjú blöð hægra megin og tvö vinstra megin. Í lungum berst andrúmsloft í gegnum barka til sífellt smærri berkjugreina. Berkjurnar eru holar að innan og í gegnum þær berst loft til lungnablaðra, sem eru u.þ.b. 300 milljónir talsins. Í lungnablöðrum berst súrefni úr andrúmslofti inn í blóðrásina og þaðan til frumna líkamans. Lungun losa einnig koltvísýring úr líkamanum og viðhalda um leið réttu sýrustigi blóðs. Þau gegna jafnframt mikilvægu hlutverki í vörnum líkamans, t.d. gegn sýklum og ryki.
Svæðið á milli lungnanna heitir miðmæti (e. mediastinum), en í því er m.a. að finna eitla. Eitlarnir eru eins konar síur og hreinsa m.a. sogæðavökva sem berst frá lungum. Hvort lunga um sig er umlukið þunnri himnu sem kallast fleiðra (e. pleura), en hún þekur einnig innanvert brjósthol. Á milli þessara himna er fleiðruhol og getur safnast vökvi í það.