Greiningarferli á Landspítala og sameiginlegir fundir sérgreina

Frá árinu 2008 hafa sjúklingar með hnút í lunga verið rannsakaðir samkvæmt ákveðnu ferli á Landspítala, bæði til að fá greiningu og til að undirbúa frekari meðferð, t.d. hugsanlega skurðaðgerð. Þannig er reynt að setja upp nauðsynlegar rannsóknir á einum eða tveimur dögum. Að rannsóknum loknum hittir sjúklingurinn síðan lungnalækninn sem stjórnaði þeim og er þá farið yfir niðurstöður og áform um meðferð.

Á síðustu árum hefur mikil áhersla verið lögð á samvinnu ýmissa sérgreina í meðferð sjúklinga með lungnakrabbamein. Á Landspítala er starfandi hópur sérfræðinga sem í eru lungnalæknar, krabbameinslæknar, meinafræðingar, röntgenlæknar og lungnaskurðlæknar. Hópurinn heldur vikulega fundi þar sem farið er yfir nýgreind tilfelli og tekin sameiginleg ákvörðun um meðferð.