Lungnakrabbamein er upprunnið í frumum lungna. Krabbamein sem myndast annars staðar í líkamanum geta dreift sér til lungna, til dæmis brjóstakrabbamein eða ristilkrabbamein. Þegar krabbameinsfrumur hafa dreift sér frá upprunastaðnum til eitla eða annarra líffæra kallast það meinvarp. Lungnameinvörp teljast ekki til lungnakrabbameins, enda meðferð þeirra frábrugðin.
Í þessari bók getur heilbrigðisstarfsfólk og almenningur lesið allt um lungnakrabbamein, m.a. um ífaraldsfræði og áhættuþætti, erfðir, líffærafræði lungna, einkenni og teikn, skimun, greiningu og stigun en ekki síst nýjungar í meðferð og horfur. Auk þess er ítarlegur kafli um hvernig hætta megi reykingum. Bókin er skrifuð af íslenskum sérfræðingum og stuðst við nýjustu rannsóknir.
Lungnakrabbamein er upprunnið í frumum lungna. Krabbamein sem myndast annars staðar í líkamanum geta dreift sér til lungna, til dæmis brjóstakrabbamein eða ristilkrabbamein.
Lungnakrabbamein eru oftast 3 – 6 cm í þvermál þegar þau greinast, en geta verið aðeins nokkrir millimetrar að stærð ef þau finnast fyrir tilviljun, t.d. á tölvusneiðmyndum.
Flestir sjúklingar sem greinast með lungnakrabbamein hafa einkenni sem rekja má til sjúkdómsins. Hlutfall þeirra sem greinast fyrir tilviljun, t.d. þegar tekin er röntgenmynd af lungum, fer þó vaxandi vegna tækniframfara í myndgreiningu, t.d. fullkomnari tölvusneiðmynda.
Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbamein hjá báðum kynjum á Íslandi og aðeins blöðruhálskirtilskrabbamein hjá körlum og brjóstakrabbamein hjá konum eru algengari. Hér á landi greinast árlega í kringum 130 einstaklingar með sjúkdóminn. Er það svipað hlutfall og á hinum Norðurlöndunum nema í Danmörku, þar sem lungnakrabbamein er algengara.
Lungun eru hluti af öndunarfærum og taka þátt í loftskiptum. Barkinn flytur loft til lungnanna sem skiptast í lungnablöð (e. lobi), þrjú blöð hægra megin og tvö vinstra megin. Í lungum berst andrúmsloft í gegnum barka til sífellt smærri berkjugreina.
Að greinast með lungnakrabbamein er áfall fyrir bæði sjúklinginn og nánustu aðstandendur hans. Auk þess getur töluvert álag fylgt meðferðinni. Margir finna fyrir kvíða og jafnvel depurð, sem eru eðlileg viðbrögð við greiningu jafn alvarlegs sjúkdóms og lungnakrabbamein er.
Reykingar eru langalgengasta orsök lungnakrabbameins og eru taldar valda um 90% tilfella. Langflestir sem greinast með sjúkdóminn hafa því reykt umtalsvert einhvern tíma á ævinni.
Ráðgjöf og stuðningur
Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins er opin alla virka daga kl. 09-16. Svarað er í síma 800 4040 milli kl. 13-15, einnig er hægt að senda tölvupóst á radgjof@krabb.is
Hægt er að ræða við hjúkrunarfræðing og félagsráðgjafa en einnig fólk sem greinst hefur með krabbamein. Lögð er áhersla á upplýsingagjöf, stuðning, ráðgjöf og fræðslu.
Nánari upplýsingar um dagskrá þjónustunnar er á vefsíðunni www.krabb.is
Stuðningshópur fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein í lungum og aðstandendur þess hittist í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands, Skógarhlíð 8, Reykjavík, fyrstu hæð, annan miðvikudag í hverjum mánuði klukkan 17:00-18:00
Ábendingar eða spurningar sendist á lungnakrabbamein@landspitali.is